9.10.2007 | 11:52
Eigum við ENN að trúa?
Uppreisn í Orkuveitunni
Eða:
,,Það er mjög auðvelt að missa forystuna og við höfum engan áhuga á því."
(Guðlaugur Þór Þórðarson).
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er í himinhrópandi andstöðu við orð sín og gerðir með ákvörðun sinni um að selja hlut OR í Reykjavik Energy Invest. Uppreisin í Orkuveitunni er fyrst og fremst uppreisn gegn borgarstjóra. Þar er hagsmunum Reykvíkinga fórnað til að knýja fram niðurstöðu sem í öllu er andstæð því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt í OR.
Eða ætla uppreisnarmennirnir á d-listanum að halda því fram að þeir hafi ekki vitað hvað var að gerast í OR á mörgum liðnum árum? Ekki einu sinni undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarssonar? Þetta gerðist á síðastliðnu ári:
1) Enex í Kína. Fyrir tæpu ári stóð ég sem þáverandi stjórnarmaður í OR við hitaveituhús í Xian Yang í Kína, þarna stóðu fjárfestar frá Íslandi ásamt fyrirmennum Orkuveitunnar og ráðherra frá Íslandi þegar ný hitaveita var vígð og áform um miklu meiri framkvæmdir kynnt. Kína yrði mesta hitaveituland í heimi með íslensku hugviti Orkuveitunnar og í samstarfi við fjárfesta.
Mogginn skrifaði leiðara um þennan atburð (5.des 2006) sem er í algjörri mótsögn við línu ritstjóra blaðsins undanfarna daga:
,,Bæði kunnáttuna og fjármagnið hafa íbúar Xian Yang nú fengið frá Íslendingum. Hitaveitan er samstarfsverkefni heimamanna og EnexKína en að því fyrirtæki standa Orkuveita Reykjavíkur, Glitnir og Enex, vettvangur íslenzkra þekkingarfyrirtækja í orkuvinnslu Í þeirri þróun sem hafin er með þessu verkefni í Xian Yang geta falizt gífurleg tækifæri fyrir íslenzk fyrirtæki.
Engin mótmæli urðu í Ráðhúsinu og því síður innan veggja Orkuveitunnar þar sem Guðlaugur Þór Þórðarsson hélt uppi merkjum útrásar Reykjvíkurlistans.
2) Mars 2007: Guðlaugur Þór stofnar Reykjavík Energy Invest: ,,Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að leggja allt að tveimur milljörðum króna til nýs útrásarfyrirtækis orkuþekkingar Reykjavik Energy Invest. Auk nýs hlutafjár verða eignarhlutir Orkuveitu Reykjavíkur í Enex, Enex Kína og öðrum útrásarfyrirtækjum lagðir inn í nýja félagið. Reykjavik Energy Invest er alfarið í eigu Orkuveitunnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir í fréttatilkynningu markmiðið að viðhalda forystu fyrirtækisins í útflutningi þekkingar á umhverfisvænni nýtingu orkulinda, sérstaklega jarðhitans. (mbl.is)
Engin mótmæli í Ráðhúsinu.
3) En hvað með kjarnastarfsemi? Háskóli Orkuveitunnar stofnaður.
Nú étur hver eftir öðrum að OR eigi að halda sig við kjarnastarfsemi, útvega vatn og rafmagn til borgarbúa. Fyrir rúmu ári stofnaði OR orkusjóð til að styrkja rannsóknir og síðan stofnaði OR háskóla (já, háskóla).
Aftur var það Guðlaugur Þór sem útvíkkaði skilning á kjarnastarfsemi:
,, STEFNT er að því að bjóða upp á meistara- og doktorsnám í orkufræðum í alþjóðlegum háskóla Orkuveitu Reykjavíkur árið 2008 með aðild Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík OR verður faglegur og fjárhagslegur bakharl námsins, sem þýðir að OR leggur fram 100 milljóna kr. stofnkostnað Á ensku nefnist hinn nýi orkuháskóli "Reykjavík Energy Graduate School of Sustainable Systems". Námið mun fara fram í húsakynnum OR og samstarfsháskólanna tveggja. Að sögn Guðlaugs Þórs efast fáir um að Íslendingar standa í fremstu röð á sviði umhverfisvænnar orku Hagur OR er augljós Það er mjög auðvelt að missa forystuna og við höfum engan áhuga á því." (Morgunblaðið).
Enginn mótmælti í Ráðhúsinu þegar rektor HR sagði þetta nýjasta skrefið í útrásinni.
4) Apríl 2007: Og Bandaríkin líka
,,ORKUFYRIRTÆKIÐ Iceland America Energy, sem er að mestum hluta í eigu íslenska fyrirtækisins Enex, hefur samið um smíði og rekstur á 50 MW gufuaflsvirkjun í Kaliforníu
Enex= OR
5) Reykjavik Energy Invest nær fótfestu í Indónesíu
Þessi frétt er ekki frá síðustu viku, heldur síðasta mánuði, og þá hreyfði enginn andmælum í Ráðhúsinu: ,
,Reykjavik Energy Invest (REI), nýtt alþjóðlegt fyrirtæki í virkjun jarðhita, og Pertamina Geothermal Energy (PGE) hafa gert með sér samkomulag um samstarf þessara aðila að þróun jarðhitaverkefna í Indónesíu REI er fjárfestingarfyrirtæki á sviði jarðvarma þar sem Orkuveita Reykjavíkur er kjölfestufjárfestir. Indónesía, sem er fjórða fjölmennasta ríki heims, er það land sem talið er búa yfir mestum jarðhitaauðlindum í veröldinni. (Vefur OR).
6) 12 sept: OR er kjölfestufjárfestir
,,Stefnt er að því að REI verði leiðandi á heimsvísu í fjárfestingum í jarðvarmavirkjunum... Á blaðamannafundi í gær kom fram að stefnt er á að nýtt hlutafé í félaginu verði gefið út og að Orkuveita Reykjavíkur verði kjölfestufjárfestir í því með um 40% hlutafjár. (Mbl).
Enn engin mótmæli í Ráðhúsinu.
7) 29. sept: Og nú til Afríku!
,,GUÐMUNDUR Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Energy Invest (REI), Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kynntu í gær þá ákvörðun REI að fjárfesta í jarðvarmaverkefni í Afríku á næstu fimm árum við lokaathöfn árlegs fundar Clinton Global Initiative. Reykjavík Energy Invest (REI) skuldbindur sig samkvæmt samkomulaginu til að fjárfesta að lágmarki 150 milljónir Bandaríkjadala eða níu milljarða króna á næstu fimm árum. (Mbl).
Eins og við munum var þá ákveðið að OR yrði kjölfestufjárfestir í REI með 40%. Og nei. Enn heyrast engin mótmæli í Ráðhúsinu.
8) Október í fyrra: Guðlaugur Þór vígir Hellisheiðarvirkjun. Hellisheiðarvirkjun selur orku til erlendrar stóriðju, talið er að verkefnið muni skila miklum hagnaði til OR, og verða til þess að ábati af starfsemi aukist mjög. Enginn talaði um að þessi orkusala á samkeppnismarkaði væri andstæð hagsmunum Reykvíkinga, og utan kjarnastarfsemi. Þvert á móti. Sjálfstæðisflokkurinn studdi hana eindregið og vill auka orkusölu til fleiri erlendra álvera, hefur m.a. undirritað samning um sölu til Helguvíkur.
Reyndar hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið áfram að láta OR greiða arð í borgarsjóð, en í tíð Reykjavíkurlistans hét það ,,að fegra stöðu borgarsjóðs. Greiðslurnar eru vel á annan milljarð króna árlega og við umræður um fyrstu fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins spurði ég hvort einhver borgarfulltrúa vildi ræða þess ,,fegrun sérstaklega. Það vildi enginn.
Eigum við ENN að trúa því að það hafi verið fyrst í síðustu viku að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengu veður af öllum útrásarverkefnum OR um alla jörð?
9) Efla tengslin við Orkuveituna.
Eftir að hafa missst af þessu öllu vilja borgarfulltrúar d-lista efla tengslin við Orkuveituna með því að einn af þeim fari í stjórn í stað Hauks Leóssonar.
Hver er hinn stjórnarmaðurinn? Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri.
10) Hvað segir Guðlaugur Þór nú?
Það vitum við ekki því hann svarar ekki.
En spurt er:Á nú að kasta fyrir róða öllu því sem áunnist hefur, fyrst og fremst fyrir tilstilli þess hve Orkuveitan er þekkt og vel metið fyrirtæki um allan heim?
Eigum við borgarbúar að missa þekkingarauðinn sem býr í fyrirtækinu og við höfum byggt upp með starfsfólki til að svala fró í innanflokksdeilum í Ráðhúsinu?
Markaðsstarf, viðskiptavild, þekkingarauður, mannskapur og geta til að mala gull í þágu borgarinnar allt burt?
Eins og Guðlaugur Þór sagði mörg hundruð sinnum á stuttum stjórnarformennskuferli sínum:
,,Það er mjög auðvelt að missa forystuna
Nú hefur verið samþykkt að kasta henni.
Athugasemdir
Geysigóð upptalning.
Sjálfstæðismenn standa öðrum mönnum framar það er ljóst, eða er það ekki?
Þetta mál er allt með hreinum ólíkindum og margt það sem þú telur upp Stefán sýnir hversu óhemju óheiðarlegt mannkerti blessaður Heilbrigðisráðherrann er.
Hann ætti að verða saddur þegar hann fer að éta ofan í sig þennan gjörning og svo á hann eftir að éta ofan í sig öll stóryrðin um um Alfreð og línu-net.
ómerkilegur er ekki nógu sterkt lýsingarorð fyrir þennan mannræfil.
Páll (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 13:59
Sérlega athyglisverð upptalning Stefán. Það verður að stöðva þetta með öllum tiltækum ráðum. Líklega er Björn Ingi eina von Reykvíkinga í þessum efnum. Nema það sé bæjarstjórinn á Akranesi. Hvernig er það getur hann ekki stöðvað þetta þar sem hann er sameignarfélag?
Sigurður Viktor Úlfarsson, 9.10.2007 kl. 15:47
Ó ætli áunnin þekking gufi nokkuð upp þótt þeir sem yfir henni búa hætti að fá launaseðla frá launaskrifstofu borgarfyrirtækis og fái hana í staðinn frá einkafyrirtæki?
Geir Ágústsson, 9.10.2007 kl. 16:13
Geir - ég held að þú sért að misskilja þetta aðeins.
Ef þeir OR menn sem hafa þekkingu fara allir til einkafyrirtækja gufar þekkingin innan OR upp, og er því "glötuð" m.t.t. OR/borgarinnar. Borgin og OR græða lítið á því ef einkafyritæki er að raka inn hagnaði af þekkingu sem var aflað á kostnað þeirra.
Ef þú ert ósammála því; má ég þá ekki tæma bankareikningana þína? Ætli peningarnir gufi nokkuð upp þótt þeir hætti að birtast á bankareikningum þínum og birtist í staðinn á mínum reikningi?
Einar Jón, 9.10.2007 kl. 16:47
Takk fyrir þessa samantekt. Mjög áhugavert og sýnir vel að Sjálfstæðisflokkurinn veit ekki lengur hvort hann á að stíga í hægri fótinn eða þann vinstri.
Núna er mikilvægt að standa vörð um Hitaveitu Suðurnesja sem OR þóttist vera að gera fyrir rúmlega 3 mánuðum síðan þegar þeir keyptu hlut í þeim. Núna á að setja Hitaveitu Suðurnesja í gin Glitnis og Hannesar Smárasonar. Bæjarfélögin sem tengjast HS verða að rísa upp en ég tel það ekki líklegt í Reykjanesbæ. Spurning hvort að HS verði skipimynt í samningum OR og vildarvina?
Ólafur Örn Pálmarsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 16:48
Ætli sé ekki réttast að við Ölfusingar látum til okkar taka og skrúfum bara fyrir holurnar uppá heiði hjá þeim á meðan Stefán Jón hristir aðeins upp í þeim.
Vignir Arnarson, 9.10.2007 kl. 17:32
Takk fyrir þessar upplýsingar. Ég hef ekki fylgst með þessum orkuveitumálum fyrr en nú - en svo virðist sem hvorki borgarstjórnarmeirihlutinn né fjölmiðlar hafi gert það heldur!
María Kristjánsdóttir, 9.10.2007 kl. 18:55
Takk fyrir
Fríða Eyland, 9.10.2007 kl. 19:34
Takk fyrir þessi þekkingarbrot um málefni OR. Þetta púslast smán saman saman hjá okkur almennum borgurum þökk sé svona upplýsingum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2007 kl. 20:19
Kannski þurfti að horfa á málin úr góðri fjarlægð til þess að sjá heildarmyndina! Takk fyrir þessa samantekt, ekki hefur álíka komið frá stjórnmálamönnum eða blaðamönnum sem staddir eru í Reykjavík þessa vikuna.
Baldur Már Bragason, 9.10.2007 kl. 20:28
Fróðleg samantekt. Þarna bendirðu hreint og beint út með staðreyndum hvernig verið er að spila með og hlunnfara borgarbúa. Væri ekki einmitt hægt að nota þessa peninga sem þekking OR hefur verið að skapa í leikskóla eða grunnskóla borgarinnar eða í önnur fjársvelt verkefni í stað þess að henda þeim í fáeina vasa sem eru hvort eð er úttroðnir?
Hrannar Baldursson, 9.10.2007 kl. 22:59
Takk fyrir þetta yfirlit Stefán.
En getur þú upplýst hvað er innifalið í öllum pakkanum sem heitir Rei og kemur frá Orkuveitunni ?
Er það bara þekkingin innan OR ?
Er engin hlutdeild í virkjunum , dreifikerfinu, vatninu,frárennsliskerfum og síðast og ekki síst hlutdeild í orkuauðlindunum ?
Efnislega hvað eru fjárfestara að kaupa ?
Sævar Helgason, 9.10.2007 kl. 23:54
Þakka þér fyrir samantektina. Guðlaugur Þór hefur í mínum augum verið alveg ótrúlega ótrúverðugur í þessu máli, og ekki má gleyma hversu hann tönnglaðist alltaf á Linu-net. sem er og verður þj'oðþrifafyrirtæki; en sem hann annaðhvort skildi aldrei; eða kaus að fara með fleipur 'arum saman:
Viljálmur borgarstj. er orðinn margsaga í þessu máli, og álít ég að hann hafi ekki nógu gott minni til að segja ósatt. Hann ætti að hugleiða afsögn.
Björn Ingi er nú bara eins og góðir framsóknarmenn eru nú á dögum, og þeirra pólitík hefur byggst upp á sl. árum að sjá vel um sig og sína, enda aðdáunarvert hversu Guðni formaður var fljótur að kokgleypa öll stóryrðin varðandi þetta má.
Kjörnir borgarstjórnarfulltrúar sjálfsæðisflokksins, virðast ekki vera færir til að taka ákvarðanir, og hlupa í foringann, og spyrja hvað skal gera, og hafa ekki dug til að koma fram í eigin persónu, varðandi þetta mál, heldur kjósa að lenda þessu máli á þann allra versta veg, sem hugsast getur bara selja all heila klabbið. Þessa ákörðun taka þeir á grundvelli að borgin eigi ekki að vera í áhættureksri, sem er eins fáránleg og hugsast getur, þeim dettur bara ekkert annað í hug. Þeir eru brjóstumkennanlegir,
Samfylkingarfulltrúarnir hafa slegið úr og í, og ekki verið mjög trúverðugir í þessu máli, gæti hugsað að fulltrúar þeirra hafi ekki sett sig ínn í málið.
Svandís Svavarsdóttir hefur staðið í lappirnar, og væri þetta sjálfsagt allt klappað og klárt ef hún hefði ekki hreyft mótmælum.
Ríki og sveitarfélög á öðrum norðurlöndum eiga, hlut í orkufyrirtækum bönkum, flugfél. símafyrirtækjum, þó svo þau hafi verið á markaði til fjölda ára, og selt hluta sinn bæði með lokuðum úboðum til þegna sinna, og í fjálsum útboðum á markaði. Hef aldrei skilið hvers vegna fyrirtæki sem hafa verið hlutafjárvædd hér á landi hafa ekki verið seld í áföngum á frjálsum markaði.
haraldurhar, 10.10.2007 kl. 00:59
Ég tek undir með öðrum og þakka þér fræðandi og góða samantekt. Það er líka áhugavert að það var ekki fyrsta verk Guðlaugs Þórs að bakka út úr þeim verkum sem hann hafði m.a. gagnrýnt Alfreð fyrir, þau voru hinsvegar mörg falin í allavega samstarfs- og nýsköpunarverkefnum í samvinnu við háskólana eða stofnuð um þau sjóðir. Með því urðu þau í "lagi".
finnst líka forvitnilegt að vitna til hans eigin orða í fréttatilkynningu frá OR
"Allt frá því um 1960 hefur Orkuveitan og einstakir starfsmenn hennar komið að jarðhitaverkefnum í öllum byggðum heimsálfum.
Af þessum sökum hefur verið mikil ásókn í að hafa Orkuveituna á meðal eigenda útrásarfyrirtækja í orkugeiranum. „Það er ákaflega mikilvægt að Orkuveitan komi með öflugum og afgerandi hætti að þeirri bylgju útrásar sem nú stendur yfir,“ segir Guðlaugur Þór. "
En það var þá...
Kristín Dýrfjörð, 10.10.2007 kl. 01:37
Sæll Stefán Jón.
Góð upptalning fyrir okkur hin sem skiljum lítið af öllu þessu máli.
Allt gott að frétta bestu kveðjur
Ingigerður Friðgeirsdóttir, 10.10.2007 kl. 22:02
Gott og blessað; ágætis samantekt sem sýnir að þú hefur tekið eftir sem stjórnarmaður í OR. Þú ert m.ö.o. betri en VÞV sem tók ekkert eftir.
Þú verður hins vegar að átta þig á því að orkugeirinn er ekki með skjótfengann gróða. Í jarðvarmaverkefnum er lagt upp með umtalsverðan stofnkostnað, payback tími er oft yfir 10 árum á verkefnum og óvissan talsverð. Vegna þessa eru stóriðjusamningar (sem tryggja kaupanda til lengri tíma) í einhverjum skilningi nauðsynlegir.
Eftir því sem ég best veit styrkir OR grunnrannsóknir á ýmsum sviðum. T.d. eru lokaverkefnisstyrkir í verkfræðideild(um) og einnig geta þeir haft hag af því að taka þátt í nýsköpunarverkefnum á frumstigum. Eftir það eykst óvissa og ég sem útsvarsgreiðandi hef ekki mikinn áhuga á því að taka þátt í að fjármagna endalausar hugmyndir; sem oftar en ekki eru betur settar í þróun hjá einkaaðilum. Dæmi: Hver er óvissan í verkefninu í Dibjútí? Ég er nánast handviss um að það sé að fá greitt fyrir hverja kWh rafmagns, hvað þá varma (ef hann yrði seldur einnig). Mér finnst óforsvaranlegt að útsvarið mitt sé lagt í það verkefni. Risarækjueldi gæti virkað (ég sæi fyrir mér að notaður yrði kastvarmi þar, þ.e. affall frá ofnum) en það er alltaf umtalsverð óvissa í öllu.
Það er fínt að leggja fé í grunnrannsóknir og fyrstu skref þróunar. Eftir það er óforsvaranlegt að leggja skattfé að veði. Ekki síst fyrir þær sakir að oft vita greiðendur af því að fjármögnunin er af opinberu fé; sem gæti gert viðkomandi tregari til greiðslu á reikningum. Íslendingar hafa þann orðstír að vera ríkir; þannig að þetta gæti komið upp.
Ekki gleyma því að Enex hefur ávallt skilað tapi eftir því sem ég best veit. Athugaðu bara ársreikninga félagsins.
Þrándur (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 23:52
Alveg mögnuð samantekt sem Kastljósmenn hljóta að vekja athygli á. Annars vakna raddir um "Bláskjá".
Það er ljóslega nokkurt bil milli hugmyndafræði og verka sjálfstæðismanna.
Jón Halldór Guðmundsson, 12.10.2007 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.