Tilhæfu

 

 Ungur í annað sinn

Forsíða Moggans í dag færði mig aftur í 10. ára bekk.  Ég hafði fylgst með stjórnmálum gegnum Moggann í nokkur misseri og byrjaður að átta mig að staðreyndum lífsins.  Ein af þeim er sú að  nokkrum dögum fyrir kosningar varar Mogginn við glundroða vinstri stjórnar sem vofi yfir landslýð.  Það er venjulega gert í ,,frétt" af einhverju ,,tilefni".  Í þá daga birti Mogginn líka myndir af sovéskum þotum á ,,njósnaflugi" skammt undan Íslandi á kjördag.

Í dag er fréttin á forsíðu með áhrifaríkum ummælum Geirs Haarde, vegna þess að kannanir í gær sýndu að stjórnin væri fallin.  Mikill afturkippur á öllum sviðum er inntak ,,fréttarinnar".

Kannanir í dag sýna að stjórnin heldur velli.  Eigum við þá von á forsíðufrétt í í Mogga með mynd af Ingibjörgu Sólrúnu:  ,,Varar við hægristjórn - velferðarkerfið hrynur"?

Ég held ekki.

 En það var fleira slæmt í blöðunum í dag sem varð til þess að ég neyddist til að verja matartímanum í að skrifa smá yfirlýsingu:

Tilhæfulausar ásakanir Júlíusar Vífils

Vegna mjög svo óviðeigandi ummæla Júíusar Vífils Ingvarssonar í minn garð í Fréttablaðinu miðvikudag er rétt að upplýsa almenning:

Það er með öllu tilhæfulaust að ég ,,hafi nýtt" mér ,,,aðgang að netföngum starfsmanna Reykjavíkurborgar" eins og Júlíus Vífill fullyrðir. Ég veit ekki hvernig það er gert, dytti það ekki í hug og hef aldrei gert.

Staðreynd málsins er sú að ég sendi fréttapóst úr tölvu eins og ég hef gert reglubundið í mörg ár á hóp sem var ávarpaður í bréfinu sem ,,Kæru vinir og félagar". Meginefni var að kynna endurnýjaða heimasíðu, auglýsa eftir týndum ketti og velta vöngum um nýjar skoðanakannanir. Fyrir vangá mína var pósturinn líka sendur á tvo aðra hópa af mörgum í póstskrá minni sem ég hef byggt upp úr margvíslegum samskiptum á sex árum. Af þeim einstaklingum sem óvart fengu bréfið hafa fjórir haft samband og frábeðið sér slíkar sendingar með kurteisum og málefnalegum hætti. Það fólk hef ég beðið afsökunar á mistökunum og útskýrt. Ég hygg að það sé ekki í fyrsta skipti á Íslandi að tölvupóstur er sendur á rangan hóp viðtakenda, svo leitt sem það nú er.

Þetta hefði ég getað sagt blaðamanni Fréttablaðsins, sem segir að ekki hafði náðst í mig við ,,vinnslu" fréttarinnar.  Ég skal ekki rengja að reynt hafi verið að hringja þótt sími minn og talhólf sýni þess engin merki.  Vinnslan var nú ekki meiri en svo að hægt er að hafa upp á netföngum mínum á að minnsta kosti þremur vefsíðum á Íslandi. Þar á meðal þeirri vefsíðu sem kynnt var í umræddum pósti og hefur nú verið endurnýjuð undir sama veffangi og ég hef haft síðustu sex ár: www.stefanjon.is

 

Ps. Kötturinn er kominn fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband