Heimspeki handboltakappans. Eða: Manngildishugsjón jafnaðarmennskunnar fær nýja rödd

 Staðan

Ég hef aldrei verið eins stoltur að því að vera Íslendingur og ég hef verið að læra það, að, að það er ótrúleg, það, það er, það er ótrúleg gjöf að fá að vera Íslendingur og hérna, og það eru bara 300 þúsund manneskjur sem hafa fengið þá gjöf einhvernvegin frá, þessum gaur, eða hvað hann er, eða hvað þetta er. Og við eigum að, við eigum að vera svo stolt að því og við eigum að nýta það og við eigum að keppa við sjálf okkur endalaust og ekki hvort annað. Höldum því áfram og, og hérna, og breytum heiminum og, og höldum áfram með það kreativití, þú veist, þá, þá sköpunargáfu sem að býr í okkur og verum bara best...og glöð. Takk

(Ólafur Stefánsson, ágúst 2008).


Eigum við ENN að trúa?

Uppreisn í Orkuveitunni

Eða:

,,Það er mjög auðvelt að missa forystuna og við höfum engan áhuga á því."
(Guðlaugur Þór Þórðarson).

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er í himinhrópandi andstöðu við orð sín og gerðir með ákvörðun sinni um að selja hlut OR í Reykjavik Energy Invest. Uppreisin í Orkuveitunni er fyrst og fremst uppreisn gegn borgarstjóra. Þar er hagsmunum Reykvíkinga fórnað til að knýja fram niðurstöðu sem í öllu er andstæð því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt í OR.

Eða ætla uppreisnarmennirnir á d-listanum að halda því fram að þeir hafi ekki vitað hvað var að gerast í OR á mörgum liðnum árum? Ekki einu sinni undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarssonar? Þetta gerðist á síðastliðnu ári:

 

 1) Enex í Kína. Fyrir tæpu ári stóð ég sem þáverandi stjórnarmaður í OR við hitaveituhús í Xian Yang í Kína, þarna stóðu fjárfestar frá Íslandi ásamt fyrirmennum Orkuveitunnar og ráðherra frá Íslandi þegar ný hitaveita var vígð og áform um miklu meiri framkvæmdir kynnt. Kína yrði mesta hitaveituland í heimi með íslensku hugviti Orkuveitunnar og í samstarfi við fjárfesta.

Mogginn skrifaði leiðara um þennan atburð (5.des 2006) sem er í algjörri mótsögn við línu ritstjóra blaðsins undanfarna daga:

 ,,Bæði kunnáttuna og fjármagnið hafa íbúar Xian Yang nú fengið frá Íslendingum. Hitaveitan er samstarfsverkefni heimamanna og EnexKína en að því fyrirtæki standa Orkuveita Reykjavíkur, Glitnir og Enex, vettvangur íslenzkra þekkingarfyrirtækja í orkuvinnslu… Í þeirri þróun sem hafin er með þessu verkefni í Xian Yang geta falizt gífurleg tækifæri fyrir íslenzk fyrirtæki.”

Engin mótmæli urðu í Ráðhúsinu og því síður innan veggja Orkuveitunnar þar sem Guðlaugur Þór Þórðarsson hélt uppi merkjum útrásar Reykjvíkurlistans.

 

2) Mars 2007: Guðlaugur Þór stofnar Reykjavík Energy Invest:   ,,Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að leggja allt að tveimur milljörðum króna til nýs útrásarfyrirtækis orkuþekkingar – Reykjavik Energy Invest. Auk nýs hlutafjár verða eignarhlutir Orkuveitu Reykjavíkur í Enex, Enex Kína og öðrum útrásarfyrirtækjum lagðir inn í nýja félagið. Reykjavik Energy Invest er alfarið í eigu Orkuveitunnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir í fréttatilkynningu markmiðið að viðhalda forystu fyrirtækisins í útflutningi þekkingar á umhverfisvænni nýtingu orkulinda, sérstaklega jarðhitans.” (mbl.is)

Engin mótmæli í Ráðhúsinu.

3) En hvað með kjarnastarfsemi? Háskóli Orkuveitunnar stofnaður.

Nú étur hver eftir öðrum að OR eigi að halda sig við kjarnastarfsemi, útvega vatn og rafmagn til borgarbúa. Fyrir rúmu ári stofnaði OR orkusjóð til að styrkja rannsóknir og síðan stofnaði OR háskóla (já, háskóla).

Aftur var það Guðlaugur Þór sem útvíkkaði skilning á kjarnastarfsemi:

 ,, STEFNT er að því að bjóða upp á meistara- og doktorsnám í orkufræðum í alþjóðlegum háskóla Orkuveitu Reykjavíkur árið 2008 með aðild Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík… OR verður faglegur og fjárhagslegur bakharl námsins, sem þýðir að OR leggur fram 100 milljóna kr. stofnkostnað … Á ensku nefnist hinn nýi orkuháskóli "Reykjavík Energy Graduate School of Sustainable Systems". Námið mun fara fram í húsakynnum OR og samstarfsháskólanna tveggja. Að sögn Guðlaugs Þórs efast fáir um að Íslendingar standa í fremstu röð á sviði umhverfisvænnar orku… Hagur OR er augljós… Það er mjög auðvelt að missa forystuna og við höfum engan áhuga á því." (Morgunblaðið).

Enginn mótmælti í Ráðhúsinu þegar rektor HR sagði þetta nýjasta skrefið í útrásinni.

 

 4) Apríl 2007: Og Bandaríkin líka

,,ORKUFYRIRTÆKIÐ Iceland America Energy, sem er að mestum hluta í eigu íslenska fyrirtækisins Enex, hefur samið um smíði og rekstur á 50 MW gufuaflsvirkjun í Kaliforníu”

Enex= OR

 

5) Reykjavik Energy Invest nær fótfestu í Indónesíu

Þessi frétt er ekki frá síðustu viku, heldur síðasta mánuði, og þá hreyfði enginn andmælum í Ráðhúsinu: ,

,Reykjavik Energy Invest (REI), nýtt alþjóðlegt fyrirtæki í virkjun jarðhita, og Pertamina Geothermal Energy (PGE) hafa gert með sér samkomulag um samstarf þessara aðila að þróun jarðhitaverkefna í Indónesíu… REI er fjárfestingarfyrirtæki á sviði jarðvarma þar sem Orkuveita Reykjavíkur er kjölfestufjárfestir. Indónesía, sem er fjórða fjölmennasta ríki heims, er það land sem talið er búa yfir mestum jarðhitaauðlindum í veröldinni.” (Vefur OR).

6) 12 sept: OR er kjölfestufjárfestir

,,Stefnt er að því að REI verði leiðandi á heimsvísu í fjárfestingum í jarðvarmavirkjunum... Á blaðamannafundi í gær kom fram að stefnt er á að nýtt hlutafé í félaginu verði gefið út og að Orkuveita Reykjavíkur verði kjölfestufjárfestir í því með um 40% hlutafjár.  (Mbl).

Enn engin mótmæli í Ráðhúsinu.

 

7) 29. sept: Og nú til Afríku!

,,GUÐMUNDUR Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Energy Invest (REI), Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kynntu í gær þá ákvörðun REI að fjárfesta í jarðvarmaverkefni í Afríku á næstu fimm árum við lokaathöfn árlegs fundar Clinton Global Initiative. Reykjavík Energy Invest (REI) skuldbindur sig samkvæmt samkomulaginu til að fjárfesta að lágmarki 150 milljónir Bandaríkjadala eða níu milljarða króna á næstu fimm árum.”  (Mbl).

Eins og við munum var þá ákveðið að OR yrði kjölfestufjárfestir í REI með 40%. Og nei. Enn heyrast engin mótmæli í Ráðhúsinu.

 8) Október í fyrra: Guðlaugur Þór vígir Hellisheiðarvirkjun. Hellisheiðarvirkjun selur orku til erlendrar stóriðju, talið er að verkefnið muni skila miklum hagnaði til OR, og verða til þess að ábati af starfsemi aukist mjög. Enginn talaði um að þessi orkusala á samkeppnismarkaði væri andstæð hagsmunum Reykvíkinga, og utan kjarnastarfsemi. Þvert á móti. Sjálfstæðisflokkurinn studdi hana eindregið og vill auka orkusölu til fleiri erlendra álvera, hefur m.a. undirritað samning um sölu til Helguvíkur.

Reyndar hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið áfram að láta OR greiða arð í borgarsjóð, en í tíð Reykjavíkurlistans hét það ,,að fegra stöðu borgarsjóðs”. Greiðslurnar eru vel á annan milljarð króna árlega og við umræður um fyrstu fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins spurði ég hvort einhver borgarfulltrúa vildi ræða þess ,,fegrun” sérstaklega. Það vildi enginn.

Eigum við ENN að trúa því að það hafi verið fyrst í síðustu viku að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengu veður af öllum útrásarverkefnum OR um alla jörð?

 

9)  Efla tengslin við Orkuveituna.

Eftir að hafa missst af þessu öllu vilja borgarfulltrúar d-lista efla tengslin við Orkuveituna með því að einn af þeim fari í stjórn í stað Hauks Leóssonar.

Hver er hinn stjórnarmaðurinn?  Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri.

10) Hvað segir Guðlaugur Þór nú?

Það vitum við ekki því hann svarar ekki. 

 En spurt er:Á nú að kasta fyrir róða öllu því sem áunnist hefur, fyrst og fremst fyrir tilstilli þess hve Orkuveitan er þekkt og vel metið fyrirtæki um allan heim?

Eigum við borgarbúar að missa þekkingarauðinn sem býr í fyrirtækinu og við höfum byggt upp með starfsfólki til að svala fró í innanflokksdeilum í Ráðhúsinu?

 Markaðsstarf, viðskiptavild, þekkingarauður, mannskapur og geta til að mala gull í þágu borgarinnar – allt burt?

Eins og Guðlaugur Þór sagði mörg hundruð sinnum á stuttum stjórnarformennskuferli sínum:

,,Það er mjög auðvelt að missa forystuna”

Nú hefur verið samþykkt að kasta henni.


Uppreisn í Orkuveitunni

Eigum við að trúa því að það hafi verið fyrst í síðustu viku að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengu veður af fjölmörgum útrásarverkefnum OR um alla jörð?

 Á nú að kasta fyrir róða öllu því sem áunnist hefur, fyrst og fremst fyrir tilstilli þess hve Orkuveitan er þekkt og vel metið fyrirtæki um allan heim?

Eigum við borgarbúar að missa þekkingarauðinn sem býr í fyrirtækinu og við höfum byggt upp með starfsfólki til að svala fró í innanflokksdeilum í Ráðhúsinu?

Markaðsstarf, viðskiptavild, þekkingarauður, mannskapur og geta til að mala gull í þágu borgarinnar – allt burt? Eins og Guðlaugur Þór sagði mörg hundruð sinnum á stuttum stjórnarformennskuferli sínum: ,,Það er mjög auðvelt að missa forystuna”

Nú hefur verið samþykkt að kasta henni.

Sjá meira um uppreisnina gegn borgarstjóra og stefnu Sjálfstæðisflokksins í OR á

www.stefanjon.is

 


Gjörningur í mannabyggð

 skoli-og-krakkarHér norpar fátækin undir dulum sem börnin sveipa um sig í kulinu frá namibíska vetrinum. Atvinnuleysi er stundum sagt 80% en hvernig er það mælt þar sem enginn virðist vinna? San menn voru safnarar og veiðimenn í 20 þúsund ár, þeim er ekki gefið að gerast allt í einu bændur. Ef jarðnæði fæst.  Samfélögin eru háð matargjöfum sem koma stopult frá stjórnvöldum, sjaldan sést peningur og þeir fáu sem eiga seðla eiga erfitt, slík er ásóknin frá hinum sem aldrei eignast neitt.

 

Í ,,þorpunum” í kring má sjá byggðir fólksins. Þetta eru 10-20 kofar fyrir 20-30 manns.  Byggðin er eins og gjörningur. Sundurgerð í klæðaburði er líkt og einhver hafi ímyndað sér sjóveikan sirkús.  

Nær grasrótinni kemst maður tæpast nema skríða. Bíllinn leggur að baki malarveg og skrönglast svo loks inn á sandslóða og krækir fyrir tré sem fílarnir hafa fellt. Þá kemur skólinn í ljós.  Alls konar ,,nytja” hlutir liggja á víð og dreif eins og eftir vindhviðu af öskuhaugum, en eru þegar nánar er að gætt hluti af ,,skipulagi” sem tekur mið af fábrotnu lífi: Kveikja í pípu, elda graut, sitja á hækjum sér, skræla Djöflakló.  Meira er það tæpast.  

Á Vesturlöndum gengur fólk í listaháskóla í fjögur ár til að læra að búa til sjónarspil sem þó gæti aldrei nálgast þessa sýningu í ,,óræðum margbeytileika” eins og gangrýnendur segja þegar þeir vita ekki meir.

Sjá www.stefanjon.is  um heimsókn til Búskmanna í Kalahari mörkinni.

hjon-reykja


Mbl þarf að læra að geta heimilda

Myndin er tekin beint af www.flugur.is og fréttin orðrétt líka, kk sjh

Ps. flugan.is er held ég ekki til, amk er fréttin ekki þaðan.


Mbl þarf að læra að geta heimilda

Þessi frétt er tekin orðrétt af www.flugur.is  en ekki flugan.is, kveðja, sjh
mbl.is Landaði 8 punda bleikju á blankskónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarsáttmálinn metinn

Ný ríkisstjórn fær auðvitað heillaóskir.

Viðbrögð við stjórnarsáttmálanum hafa yfirleitt verið góð. Þó er hann svo almennt orðaður að það er erfitt að sjá hvað af þessu væri óhugsandi fyrir hönd ríkisstjórnar sem í sætu VG, Framsókn eða Frjálslyndir.

En hvað þá með lítinn samkvæmisleik? Í október 2006 skrifaði ég grein í Mbl sem kallaðist ,,10 góðar ástæður til að kjósa Samfylkinguna”. Ég fékk nokkuð góð viðbrögð á greinina frá ýmsum. Nú þegar stjórnarsáttmáli liggur fyrir met ég hann m.t.t. sem ég lagði til þá.

Ég gef einn eða núll fyrir hvern lið eftir því hvort stjórnarsáttmálinn er í samræmi við það sem ég lagði til. Og hver er einkunnin? Það sést hér. www.stefanjon.is


Samstarf með Sjálfstæðisflokki?

Stórtíðindi hafa gerst í stjórnmálum: Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ræða saman um stjórnarmyndun. Ég lýsti því opinberlega í fyrrasumar að þetta gæti verið eðlilegur kostur, og uppskar mismikinn fögnuð í flokknum, eins og reyndar mörgum mánuðum áður þegar ég hafði reifað samstarf við sjálfstæðismenn af öðru tilefni. 

Það var í júlí í fyrra að Margrét S. Björnsdóttir reið á vaðið með ítarlegri grein um það sem þessir flokkar gætu náð saman um. Ég fylgdi eftir við nokkur mótmæli úr okkar röðum og leyfi mér að rifja upp hluta úr þeirri grein þegar nú hafa skipast veður í lofti.  Margt að því stenst nefnilega skoðun í dag: 

,,ÉG ER þeirrar skoðunar að Samfylkingin eigi ekki að hafna fyrirfram neinum kostum um stjórnarsamstarf á næsta kjörtímabili. Þar komi Sjálfstæðisflokkurinn til greina"

Um hið pólitíska erindi sagði ég:

,,Mikilvægt er að boðskapur okkar sé skýrt tengdur manngildishugsjón jafnaðarmennskunnar og varði almannahagsmuni: Velferð, náttúru, auðlindir og nýtingu þeirra, menntun og þekkingarsamfélag, alþjóðlegt samstarf og samkeppnis- og neytendamál. Undir hverjum lið verði skilgreind afmörkuð verkefni næsta kjörtímabils. ...Felur það í sér að Samfylkingin hafni fyrirfram samstafi við Sjálfstæðisflokkinn og ákveði að þá og því aðeins setjist hún í ríkisstjórn að verði með einhverjum öðrum flokkum? Það tel ég óskynsamlegt. Slík nauðhyggja leiddi ekkert gott af sér fyrir málstað jafnaðarmanna við sveitarstjórnarkosningarnar í vor, hvorki í Reykjavík né annars staðar.

Meira um hugsanleg ágreiningsefni við Sjálfstæðisflokk og hlutverk Samfylkingarinnar á www.stefanjon.is  


Nauðsynleg lesning

Því miður er Mogginn hættur að birta fréttir af því sem gerist á bak við tjöldin í pólitíkinni nema þegar Ingibjörg Sólrún verður pirruð.  En leiðarinn í dag er ágætis opinberun um nauðsyn þess að halda núverandi stjórnarsamstarfi í gangi:

1) Framsóknarflokkurinn hlýtur að skilja að með alla opinbera sjóði fulla hlýtur að vera betra í stjórn en utan til að útdeila gæðunum.

2) Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að skilja nauðsyn þess að halda Ingibjörgu Sólrúnu utan stjórnar.

Tvö háleit markmið um landsstjórnina.

Þau verða þeim mun háleitari þegar þau eru sett í samhengi við pólitískan reifara á www.mannlif.is 


Sigurvegarar


Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari kosninganna hvernig sem á málið er litið. Eftir langa stjórnarsetu fær hann aukið umboð og fleiri þingmenn, meðan samstarfsflokkurinn fær refsingu.

Það er því ekki hægt að segja að niðurstaða kosninganna sé beinn og afdráttarlaus áfellisdómur um stjórnina.

Það er engin leið að horfa framhjá því að þjóðin vill fela Sjálfstæðisflokki forystu í ríkisstjórn.

Þótt sigur VG sé líka stór, er engin slík krafa á bakvið. VG hirðir stjórnarandstöðuvinninginn - sem andstöðuflokkur fyrst og fremst.

Spurningin sem Framsókn spyr sig nú er: Hvers vegna við en ekki þeir? Þetta er líka spurningin sem Samfylkingin stendur frammi fyrir: Hvers vegna vinnur VG í stjórnarandstöðu en ekki hún?

Ég hef mína kenningu um það. Ég held henni hins vegar fyrir mig á meðan mitt fólk veltir vöngum, ræðir sín í milli og dregur lærdóm. Það er engum til gagns að hrapa að niðurstöðu eða fella sleggjudóma. Þetta er lærdómsferli sem þarf að vanda.

meira á www.stefanjon.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband